![middeldorp_hristir_jakvae_ann.jpg middeldorp_hristir_jakvae_ann.jpg]()
Hjartaspítalinn í Mosfellsbæ er aðalgúrkan í augnablikinu. Trúa því nú fæstir að það sé nokkur glóra í þessu framtaki ellegar í kollóttu höfðinu á hinum hollenska fjármálameistara, Hendrikus Eberhard Middeldorp, sem nú gengur undir nafninu Henri þar sem hann boðar fagnaðarerindið í lúpínugrónum brekkunum fyrir ofan Mosfellsbæ.
Langar mig til að byrja með að benda lesendum mínum á nokkrar athuganir sem ég setti um hollenska "fjárfestinn" á FB Guðmundar Magnússonar blaðamanns og sagfræðinema með meiru. Einnig má benda fólki á lofsverða yfirferð Láru Hönnu á Stundinni.
Middeldorp á sér ævintýralega forsögu í Barcelona á Spáni, sem vert væri fyrir blaðamenn að glugga í. Það væri einnig fróðlegt fyrir auðtrúa, íslenska samstarfsaðila (les styrktaraðila) Middeldorps. Á Spáni átti Hendrikus Middeldorp t.d.aðild að fyrirtæki sem hann sofnaði árið 2000 og kallaði INTERSTATE MANAGEMENT GROUP SL. Það fyrirtæki hefur aldrei skilað ársreikningum til yfirvalda á Spáni. Hendrikus Eberhard Middeldorp er heldur ekki fyrrverandi bankamaður eins og hann hefur margoft haldið fram.
Hendrikus (Henri) Middeldorp er fæddur 15. maí 1955 í Schiedam í Hollandi. Þó hann segist vera ríkur bankamaður og framkvæmdastjóri (m.a.fjölda fyrirtæki sem innihalda nafnið Burbanks), á hann vart bót fyrir rassinn á sjálfum sér - nema líklega þá peninga sem hann lætur þá auðtrúa borga sér til að stjórna sirkusnum.
Hann skýrir nú fjármál hjartaspítalans þannig í Fréttablaðinu. Hann segir að ævintýrið
"verði fjármagnað með láni frá hollenska félaginu Burbanks Holding í gegnum annað hollenskt félag, Burbanks Capital, til MCPB með veði í spítalanum. Hann eigi sjálfur 51 prósent í Burbanks Holding sem eigi svo 98 prósent í MCPB. Fjármagnið sem fara eigi í spítalann sé hins vegar ekki í hans eigu heldur í eigu fjárfesta en sé í eignastýringu hjá Burbanks Holding."
Þetta þótti mér í meira lagi athyglisvert, því áður hafði því verið haldið fram að eitthvað sem hann kallaði Burbanks Trust and Investments stæði fyrir 49 % hlutafé fyrir Burbanks Holding og Middeldorp sjálfur væri "góður fyrir" 51% sem rynni til Burbanks Holding og svo til MCPB.
![skjaskot_ruv.jpg skjaskot_ruv.jpg]()
Ég er ekki fjármálasérfræðingur heldur fornleifafræðingur og gref því af og til, en nú hef ég bókstaflega kafað niður á botneðjuna í hinum gruggugu díkjum hollensks fjármálalífs til að finna upplýsingar um aðalfjárfestinn á hjartaspítalann og upplýsingar um Burbanks Holding, Burbanks Capital og Stichting Burbranks Trust and Investment, því ekkert fyrirtæki er til sem aðeins heitir Burbanks Trust and Investments.
Ég hafði samband við nokkrar stofnanir í Hollandi og fékk t.d. upplýsingar um fyrirtæki Middeldorps sem eru orðin nokkuð mörg, t.d. (sjá hér). Ítarlegri upplýsingar geta menn fengið hjá Kamer van Koophandel (Chamber og Commerce) fyrir smá borgun.
Hér getið þið séð haldgóðar upplýsingar um Burbanks Holding B.V. og hér um Stichting Burbanks Trust and Investments og hér um Burbanks Capital (réttu nafni Coöperatie Burbanks Capital U.A.).
Meðstjórnandinn rekur kaffihús í Belgíu
Herra Middeldrops, sem á sér enga fortíð í bankastarfsemi, er skráður sem stjórnandi og eigandi Burbanks Holding B.V. með Peter Lucien Hilda Verbeemen. Þeir leggja til 51% af fjárfestingum í Hjartaspítalann, samkvæmt upplýsingum sem RÚV hefur fengið hjá Middeldorp. Það vekur athygli mína að þetta fyrirtæki er skráð með 1 evru í kapital.
Það vekur einnig athygli mína að Peter Lucien Hilda Verbeemen, sem er kaffihúseigandi í bænnum Hasselt í Belgíu, þar sem hann rekur lítið kaffihús og bar sem ber nafnið De Witte á Maastrichterstraat 21. Samkvæmt upplýsingum sem finna má á netinu er ekki mikill gróði af þeim rekstri. Hr. Verbeemen hlýtur því að hafa auðgast af einhverju öðru en kaffi og bjór.
Ég hringdi því í morgun í Peter Lucien Hilda Verbeemen og spurði hann hvernig vera gæti að hann væri þáttakandi með kapítal að helmingi þess fjármangs sem færi í hjartaspítala á Íslandi. Mikið fát kom á blessaðan manninn og vísaði hann alfarið á meðstjórnanda sinn í Burbanks Holding B.V., Hendrikus Middeldorp, sem "væri inni í öllu þessu með fjármálin".
Er bæjarstarstjórnin í Mosfellsbæ í samstarfi við öldurhúseiganda í Hasselt í Belgíu um að byggja hjartaspítala? Ja - greinilega.
Skoðar maður gögn um Stichting Burbanks Trust and Invstements kemur í ljós, að hr. Middeldorp er með 0 (núll) starfsmenn í þessu félagi. Hann er heldur ekki með skrifstofu á heimilisfanginu sem gefið er upp í Eindhoven á heimasíðu spítalaævintýrsins. Middeldorp leitar hins vega nú í Belgíu að 10 manns til að vinna í 1-3 ár að verkefninu og gefur upp gmail tölvufang sitt (sjá hér).
Ritarinn í Burbanks Capital "framleiðir" Bandit Beverage
Skoðum svo Coöperatie Burbanks Capital U.A. sem Middeldorp nefnir einnig til sögunnar. Þar kemur einnig við sögu fyrrnefndu Peter Lucien Hilda Verbeemen, sem dags daglega lifir af því að skenkja bjór og kaffi, en ritari samvinnufélagsins er hinn íranskættaði hr. Dimitri Djahanbani, (fæddur 1968 í Hasselt í Belgíu og sem m.a. stendur í rekstri fyrirtækis sem kallast Bandit Beverage Company. Ekki veit ég hvaða drykki það fyrirtæki framleiðir, en skyldi það aðeins vera blávatnið sem hr. Middeldorp ætlar sér að selja frá Íslandi, líkt og orkuna og peningarnir sem hann "lánaði" í verksmiðju á Grundartanga, eða ódýra (ókeypis) græna orkan sem hann ætlaði að selja í Belgíu og svo framvegis, etc.,etc.?
Munu sjúklingarnir í Mosfellsbæ drekka sull frá Bandid Beverage Company ? Því get ég ekki svarað. En ég sé enga forsendu fyrir því að Dimitri Djahanbani (Djahnbani) sem líka er shaman og heilari í frítíma sínum, að standa í fjármálastjórn í samvinnufélaginu Burbanks Capital U.A. við byggingu spítala á Íslandi, þó hann sé kannski klár að búa til glæpamanndrykki í Belgíu. En ef til vill mun hann bjóða upp á Djanbani-heilun og Shamankransæðakokkteil á Hjartaspítalanum?
Hefur bæjarstjórnin í Mosfellsbæ, og allir gráðugu læknarnir sem ætla að vera með í hankípaníinu, samstarf við forstjóra sem stjórnar "milljarðafyrirtæki" úr ferðatöskunni sinni. Jú - greinilegt er að sumir Íslendingar eru arfavitlausir þegar þeir halda að peningar séu í sjónmáli.
Nú gerist hann óskammfeilinn
Hr. Middeldorp lét þessi orð fljúga nú í morgunn við Fréttablaðið
„Hvernig getur þú grafið undan heilbrigðiskerfi ef kerfið er sjálft að grafa undir [sic] sér?“ spyr Middeldorp. „Ef fólk kvartar undan því að við séum að rústa einhverju þá þarf að vera eitthvað til þess að rústa, ef svo má segja.“
Þvílík óskammfeilni! Til er heiti fyrir slíka menn á hollensku: OPSCHEPPER, sem er af sama uppruna og íslenska orðið uppskafningur.
Manni leiðist enn meira en áður að sjá flóttamönnum vísað úr landi á Íslandi, þegar karlar eins og Hendrikus Middeldorp, sem fæddur er í Skítatjörn í Hollandi, fær að vaða uppi í boði gráðugra lækna og bæjarstjóra með brenglaða dómgreind, bara vegna þess að ákveðinn hluti þjóðarinnar er haldin sjúklegri græðgi og annar hlutinn barnslegri einfeldni.