
Mikið var nú gaman að sjá frændfólk mitt í einum þátta Egils Helgasonar um vesturfarana. Ég er frændi Stephans G. og einn þeirra sem standa honum næst á Íslandi, ef svo má að orði komast. Stórgaman var að sjá barnabörn Stephans G. og hve lík þau voru sumu frændfólki mínu og þeirra á Íslandi. Sömu kækirnir, sami tjáningarmátinn. Litningar láta ekki að sér hæða.
Það fer hins vegar í verra að ég geti ekki hrósað Agli Helgasyni fyrir þættina. Ég get ekki gert athugasemdir á Eyjunni og heldur ekki á DV. Ég fæ enga skýringu á þessu ritbanni í athugasemdasvæði Eyjunnar. Ég hef spurst fyrir um það en fæ engin svör. DDR-háttalag íslenskra fjölmiðlamanna er útbreiddara en maður hefði haldið.
Þótt Agli Helgasyni sé illa við tilhugsunina um að ég sé frændi Stephans G. og hann hafi látið það í ljós á mjög ljótan og lítilmótlegan hátt (sjá nánar hér og hér), er lítið sem hann getur gert við því. Ég er bara feginn því að Egill sé ekki ættmenni mitt. Ég er afkomandi Þórðar Sigurðsonar stýrimanns, en Stephan G. og hann voru systrasynir. Þeir voru afkomendur fátækra kotunga í Skagafirði, sem meikuðu það, þrátt fyrir alla mótstöðuna í lífinu, þrátt fyrir að þurfa að flýja heimasveit sína vegna yfirgangs mektarmanna og presta sem söfnuðu hrossum, riðu börnum og sungu falskt við undirleik Bakkusar.
Þótt Stephan hafi sem betur fer aldrei verið ritskoðaður í Kanada, þá er ég það á miðli þeim sem Egill Helgason skrifar pistla sína á. Eyjan er miðill sem annars hreykir sér af frelsi hugsana og skoðana og þar eru ábyrgðarmenn flestir sérleyfishafar á réttar skoðanir og kenndir. Mikið fer heiminum aftur. Egill hyllir friðarsinnann Stephan G. fyrir skattpeninga þjóðarinnar en Eyjan.is ritskoðar aumingja mig án röksemda nærri heilli öld eftir að Stephan frændi velti fyrir sér heimsfriðinum í litla "bleika" húsinu í Markerville.
Ég læti Bill frænda syngja Agli sönginn um lestina Voodoo King sem Egill Helgason verður fyrr eða síðar fyrir eða Drottningu Frelsisins sem félagar hans á Eyjunni hafa gert útlæga.