
Þrátt fyrir hinn hræðilega atburð sem átti sér stað í Sandy Hook barnaskólanum í bænum i Newtown Connecticut, virðist fólk í þeim bæ, nágrenninu og jafnvel í gjörvöllum Bandaríkjunum ekki vilja fórna byssueigninni fyrir sitt litla líf.
Bandaríkjamenn, eins og aðrir, eru meistarar í að sjá aðrar ástæður en þær sönnu fyrir atburðum sem þessum, þar sem 20 börn og 7 fullorðnir voru myrt af ungum, veikum manni, sem ekki fékk hjálp.
Nú eru öll vígi þeirra sem hafa bent á ákveðnar manngerðir fyrir svona glæpum fallin. Adam Lanza var hugsanlega með Apsperger heilkenni, en ekki hef ég séð sérfræðingana benda á að þeir sem væru með þann sjúkdóm gætu verið í áhættuhópi fyrir fjöldamorðingja í skólum. Það er ekki bara ein "manntegund" sem getur framið svona glæpi. En ef ungur maður er veikur og móðir hans sankar að sér skotvopnum, eins og í þessu tilviki, er slíkt líklegra til að eiga sér stað.
Stór hluti Bandaríkjamanna óskar aumingja drengnum sem framkvæmdi ódæðið heitri dvöl í helvíti og aðrir vilja kenna eftirlifandi fjölskyldu hans um. Eins og á Gaza og meðal sumra Íslendinga þar sem gyðingum er kennt um allt, er ruglað lið á fullu á veraldarvefnum að reyna að sýna fram á að Adam Lanza hafi verið gyðingur. Það var hann víst ekki, en að minnsta kosti eitt fórnarlamba hans var það.
Allt þetta orðagjálfur og hatur í garð einstaklings, sem var afraksturs þess samfélags sem hann bjó í, hjálpar ekki foreldrum og ættingjum sem misst hafa börnin sín eftir stutta jarðvist og sína nánustu í tilgangslausum vígum, sem fyrst og fremst eru framin og verða framin meðan byssan er tákn frelsisins í BNA. Meðan skotvopnið er frelsistákn, er glæpastarfssemi, hryðjuverkastarfsemi og græðgi hliðargreinar skotgleðinnar. Þar myndast vondur hringur sem ekki verður stöðvaður fyrr en byssan verður bönnuð, falin, grafin, brædd upp. Fyrr fá Bandaríkjamenn ekki frelsið, sem þeir ímynda sér svo gjarnan að þeir hafi.