
Vel skil ég helsta trymbil búsáhaldabyltingarinnar, Hallgrím Helgason, þegar á að setja ofurskatta á bækur og menningarefni, en hins vegar að gera sykur og fitu skattfría. Bækur eru sykur, jafnvel sumar hverjar hunang, og eiga að vera nær skattfrjálsar alveg eins og Cocoa Puffið sem forsætisráðherrann borða alltaf á morgnanna. Ég held líka, að Hallgrímur slagverksmeistari sé yfirburðar materíalístískur maður og hefði plumað sig sem góður sölumaður fyrir þýskar sláttuvélar hefði hann ekki tekið saman við skáldskapargyðjuna.
Háttalag hans eftir bankahrunið segir mér það einhvern veginn að Hallgrímur sé þræll Mammons. Hann er án þess að vilja viðurkenna það míní-kapítalisti og gífurlega upptekinn af peningum, eins og flestir listamenn og fólk er flest. Aðrir en þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokk og Framsókn þurfa líka að lifa og hafa smá lúxus, svo ekki verði bylting.
Jafngóður og Hallgrímur er í að berjast fyrir þá sem missa allt sitt kapítal (HaHe þarmeðtalinn), jafnvel vitið líka, jafn slakur er Hallgrímur í að berjast fyrir integríteti (íslenskt orð finnst víst ekki - kannski heild) í verkum sínum.
Heit Kona
Áður en bókin Kona við 1000° kom út á íslensku var bókin komin út á þýsku. En mál þróuðust þannig, vitum við nú, að þýska forlagið sem gaf bókina út hafði innanborðs afar einkennilegt fólk og þýðanda sem helst sér ekki neinar óþægilegar lýsingar á einum "mikilfenglegasta" kafla sögu Þýskalands. Of safaríkar eða sannar lýsingar á ógeði því sem flestir Þjóðverjar tóku þátt í getur víst verið hættulegt á okkar tímum og valdið því að bestu skáldsögur seljist ekki hjá forlaginu Klett-Cotta. Sagnfræðirit sem Klett-Cotta gefur út eru líka afar gerilsneydd.
Hallgrímur mun hafa beygt sig fyrir vilja forlagsnasistanna á Klett-Cotta þegar hann sá fram á að 1000 gráða heita konan yrði flopp í Þýskalandi. Hann var reyndar enn að rita þýsku gerðina, þegar þýðandinn var að þýða hana, sem verður að teljast mjög nýstárleg aðferð. Hallgrímur greyið vann fram á rauðar nætur með Wagner á fullu á fóninum til að þjónkast við þýðandann sem líklega átti afa í SS eða hefur mjög góða innsýn í hvað drepið getur sölu á bókum í Þýskalandi. "Das kannst du nicht schreiben, Hallgrímur" var greinilega oftast svarið við næturvinnu Hallgríms sem sætti sig þreyttur við að þýðandinn, eða var það "Censurstelle Klett-Cotta", rúði texta hans öllu safaríku og breyttu öðru svo sumir Þjóðverjar yrðu ekki minntir of ærlega á fortíðina. Eigandi forlagsins er heldur ekki gyðingur og hefur það örugglega haft sitt að segja.
Bók, sem á Íslandi hefur helst farið í taugarnar á afkomendum Brynhildar Georgínu Björnsson, sem Hallgrímur skáldar utan um, kom út í Þýskalandi svo rúin og dauðhreinsuð að fróðir menn þekkja vart bókina þegar hún er borin saman við dönsku þýðinguna og íslensku gerðina. Á þýsku er bókin beinlínis kosher fyrir afkomendur nasista í Þýskalandi. Enginn varð leiður, engin sannleikur löðrungaði bókmenntafólkið í Þýskalandi, aðeins fiktsjón. Bókin rokselur jafnvel á bensínstöðvum í Schwarzwald.
Bókmenntafræðingar úti í hinum stóra heimi, utan Þýskalands, þar sem sárin eru enn að gróa, eða Íslands, þar sem menn eru alltaf seinir að fatta, hafa gapt af undran. Bókin kom vitaskuld fljótt út á dönsku sem Kvinden ved 1000° . Góð þykir mér grein Erik Skyum Nielsens, Romanens markedstilpasning: Et boghistorisk lærestykke i frivillig litterær censur, sem kom út á í fyrra í afmælisriti . Skyum-Nielsen sýnir í grein sinni á mjög afgerandi hátt hvernig allt bitastætt hvarf úr bókinni um heitu konuna á Íslandi og eins hvernig Hallgrímur gerðist bókmenntahóra í Þýskalandi. Skyum-Nielsen er afar kurteis maður. Danir nota ekki ljót orð eins og bókmenntahóra, en ég er viss um að ákveðin kynslóð Þjóðverja þyldi alveg að vera mér sammála, ef þeir heyrðu um og sæju mismuninn á bók Hallgríms á Íslandi og í Þýskalandi. Ég leyfir mér líka að kalla þetta skandal.

Lítil var heldur ekki undrun Claus Rothsteins bókmenntagagnrýnanda í Danmörku, þegar Guðrún Jónsdóttir, dóttir Brynhildar Gerorgínu sem Hallgrímur hefur gefið nýtt nafn og gert aðalpersónu sinni, kom á fyrirlestur Rothsteins í mars 2013. Guðrún var með yfirlýsingu sem hún hafði fyrr birt í Fréttablaðinu, þýdda yfir á ensku. Þetta hafði greinilega áhrif á Rothstein, sem ekki kallar allt ömmu sína. Nú gerðis Roðsteinn nær klökkur.
Auðvitað mega menn skálda og segja eitthvað ljótt um dauða menn, nema kannski Laxness, Eldjárn og ég gæti talið nokkra tugin annarra. Það er ekki sama hver maðurinn er á Íslandi. Hallgrímur gengur ef til vill lengra en sæmilegt er í ljósi þess að hann beygir sig síðan fyrir óskum Evruþjóðverja sem ekki vilja eða geta heyrt neitt ljótt um forfeðurna? Ég tel hins vegar, alveg persónulega, að Hallgrímur hafi misskilið konu þá sem hann tók að láni. Greining hans á henni minnir mig á sérfræðiþekkingu karla á konum anno 1900, þegar karlrembusvín voru þeir einu sem töldu sig þekkja og geta greint eðli kvenna, og það gerðist allt í einhverri pseudosexúelli fantasíu karlanna. Kona sú sem Hallgrímur tekur til meðferðar var frekar fórnarlamb en sterk forgangskona kvenna sem áttu 5 börn með jafnmörgum mönnum. Hallgrímur hefur leyft sér að misskilja konuna.
Mammon er svarið, en ekki áhugi á sál. Hallgrímur vildi græða topdollar í Þýskalandi, líkt og hann vill ekki vera ofskattaður á Íslandi. Til þess að græða sem mest í Þýskalandi var hann til í að láta gelda verk sitt svo það ylli ekki óþægindum í Þýskalandi. Ohne Geld geht gar nichts eins og Þjóðverjar segja enn. Er hægt að leggjast lægra sem höfundur, nema ef vera skyldi að nota persónu, sem er svo ferlega lík einhverri konu á Íslandi, að það lá við að verkið væri það sem á íslensku er kallað "óvirðing við látinn mann"? Menn tapa þó ekki peningum í Þýskalandi á því að sverta einhverja látna konu sem dó í bílskúr uppi á Íslandi. En greinilegra er, að enn eru til Þjóðverjar sem ekki geta þolað að heyra smá sannleika um hinn látna brjálæðing sem Þjóðverjar létu stjórna sér í 12 ár, og sömuleiðis Íslendingar sem þjónka viljugir undir rassinn á þeim eins og svo oft áður.
Er nema vona að listamaðurinn Hallgrímur sé áhugamaður um skatta, ólmur í ESB, og ófullnægður í hinni ömurlegu krónuverslun á hjara veraldar, sem hann getur þó þakkað andargift sína? Hann seldi jafnvel ömmu sína fyrir nokkrar evrur.
Ég hef verið að hugsa um að schwissa þessum pistli yfir á þýsku. Við Hallgrímur erum nefnilega skyldir í 10. lið og illkvittni erfist oft í kvenlegg, svo eitthvað eigum við Halli sameiginlegt fyrir utan hárleysið. En Hallgrímur er líka Schram, kominn af Christian Günther Schram sem settist að á Skagaströnd og seldi Íslendingum brennivín. Hallgrímur er þannig þýskur að hluta til (þótt Bryndís frænka hans hafi fullvissað alla í diplómatíunni í Washington um að íslenska Schramið sé gyðinglegt). Þýsk gen Hallgríms gætu vitaskuld líka skýrt þessa sorglegu sjálfritskoðun Hallgríms im alten Vaterland.
Þegar ég sá kápu ítalskrar þýðingar bókarinnar, datt mér andartak í hug, hvort enn önnur útgáfa væri þar á ferðinni, allt öðruvísi en sú þýska eða sú íslenska. Þó var ekkert "Heila Mussoline" í bókinni. Á ítölsku heitir bókin heitir Amma við 1000 gráður. Hvað haldið þið? Kannski er það Fahrenheit?
