
Síðastliðinn sunnudag ætlaði ég í stutta heimsókn með fjölskylduna á mjög merkilegt fornminjasafn í Cori. Búið var í síðustu viku að upplýsa mig að safnið yrði opnað aftur eftir sumarleyfi þann dag. En svo var ekki. Starfsmenn höfðu greinilega framlengt sumarleyfi sín og í bígerð var heilmikið brúðhlaup í Kirkju heilagrar Ólívíu.
Brúðurin kom í sínu fínasta pússi í svartri Volkswagen bjöllu og fólk var byrjað að safnast saman á Olívíutorgi. Eftir smá leikatriði, þar sem litlu börnin áttu að segja föður brúðarinnar og henni að þau væru komin til réttrar kirkju, héldu herlegheitin áfram en við hurfum á braut til að eiga ekki í hættu að bíllinn okkar yrði ekki lokaður af vegna ólöglegra lagninga við fjallaveginn. Ég gleymdi svo forláta sumartreyju á rauðum plaststól við safnakaffihúsið fyrir ofan torgið.

Eftir brúkaupsnóttina rættist úr peysuleysinu. Einhver hafði afhent treyjuna á barnum og hékk hún á safnbarnum morguninn eftir. Í gleði minni bauð ég frúnni upp á cappucino og grappa og gaf eigandanum ríflegt þjórfé fyrir að hafa fundið peysuna mína. Síðar um daginn hittum við Giugliano, sem er altmúligmaður fyrir danskan eiganda hússins sem við erum í. Hann er ekki ólíkur Al Pacino á yngri árum og veiðir villisvín í fjöllunum. Hann býr hér á Via della Repubblica í Cori eins og við. Það var bróðurdóttir konu Giuglianos sem var að gifta sig. Veisla hafði verið um sunnudagskvöldið og annað "gilde" var líka á döfinni um mánudagskvöldið, svo Giugliano var greinilega með þynnku og ekki í vinnu þann daginn til þess að vera vel vígur í veislu númer 2. Ég spurði hann nú ekki hvort veisla númer 3 væri fyrirhuguð. Brúðkaup eru mikilvæg í lífi manna á Ítalíu líkt og á Íslandi.
Við sáum aldrei brúðgumann, en það gerir ekkert til. Hans bíða aðeins þrautir eiginmanns og hann verður aldrei samur maður eftir, eins og Teitur Ben latínumagister sagði um þá sem tóku latínuna alla í MH. Latina bona est, og á ég hér fyrst og fremst við svæðið sem við horfum yfir á hverju kvöldi þegar við borðum á veröndinni okkar í Cori. Brátt er þessi lúxus á enda. Veruleikinn á flatlendinu tekur við á morgun.
Í þrívídd: