
Kennari einn sem heitir Hilmar, sem oft veður upp á bloggsíðum manna með hræðilegum gífuryrðum, æstist mjög um daginn þegar ég skrifaði um moskusvik Sveinbjargar framsóknaroddvita.
Ég er reyndar fyrsti Íslendingurinn, sem ég veit um, sem í riti hefur stungið upp á mosku, en ekki Illugi Jökulsson eða Egill Helgason. Ég reit í Moggann í svari til íslensks kynþáttahatara, n.t. 14. des. 1994, bls. 44: „Það er ekki nóg að yrkja landið, fólkið verður einnig að fegra. Ég fagna þeim degi, að moska rís í Mosfellssveit eða sýnagóga á Selfossi og að bænir á Alþingi verði ekki aðeins kristnar".

Hinn ofsafengni kennari, Hilmar, sem á stundum er stuðningsmaður Hamas og yfirlýstur gyðingahatari kallaði mig öllum illum nöfnum. Hann hefur t.d. kallað mig "gyðingaósóma". Eftirá, þegar æðið rennur af honum, neitar hann því að heita Hilmar og þvertekur fyrir að hann sé kennari. Hann er þó enn ekki búinn að neita því að hann sé Lionsmaður.
Ég fer ekki ofan af því að andstaða við mosku, sérstaklega mosku sem gefin hefur verið lóð, sem svo á að taka aftur frá söfnuðinum, sé ekkert annað en einhvers konar fordómar. Andstaða sjálfs míns við moskur birtist aðeins þann dag þegar þar verður boðað það hatur sem margir vinstrimenn eru haldnir, en því miður er sögufölsun orðin hluti af trúariðkunum íslensk múslíma (sjá hér). Ég hef þegar látið í ljós skoðanir mínar á síendurteknum kynþáttafordómum þjóðkirkjunnar sem birtast í Passíusálmunum og ég vona að ég þurfi ekki að gera það með múslíma.
Egill Helgason, sem nú biðst auðmjúklega afsökunar fyrir að kalla saklausa konu "rasistakellingu", skeit mig reyndar einnig út á áföllnu Silfrinu árið 2005 með röð lyga. Hann skrifaði m.a. : "Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson komst í fjölmiðla í Danmörku fyrir nokkrum árum þegar hann reyndi að fletta ofan af framgöngu Dana gegn gyðingum. Eins og kunnugt er voru danskir gyðingar ferjaðir yfir sundið til Svíþjóðar haustið 1943 og björguðust flestir með þessum hætti. Vilhjálmi taldi að þessir atburðir hefðu tekið á sig mynd goðsagnar og vildi fá að komast í skjöl útlendingaeftirlitsins til að sanna að í Danmörku hefði verið rekin andgyðingleg stefna. Úr þessu varð talsverð rekistefna." (sjá hér)
Egill birti líka þessa andgyðinglegu óþverragrein sína á visir.is og í DV þann 2.5. 2005.
Hálfum mánuði eftir að Egill Helgason níddist á mér og reyndi að gera lítið úr starfi mínu og rannsóknum, kom út í Danmörku tæplega 500 síðna bók mín Medaljens Bagside. Bók mín, sem fjallaði um flóttamenn af gyðingaættum og aðra sem Danir vísuðu úr landi, fékk mikið lof, reyndar svo mikið að sumir danskir sagnfræðingar, sem reynt höfðu að setja stein í götu mín til að hindra að ég gæti rannsakað efnið, reyndu síðar að ræna heiðrinum af uppgötvunum mínum. Þegar dönsku dagblöðin fóru að greina frá bókinni, áður en hún kom út, bað forsætisráðherra Dana um eintak af henni, og hjólaði ég sjálfur með bókina í ráðuneytið. Ráðherrann vitnaði svo í hana í Mindelunden 4. maí 2005 við árlega minningarathöfn um lok þýska hernámsins í Danmörku, þar sem hann bað gyðinga afsökunar á þeim glæpum sem fyrirrennarar hans höfðu framið og sem ég greindi frá í bók minni. Egill hefur aldrei beðið mig afsökunar fyrir að svína mig til.
Egill er, eins og allir vita, einn af aðalsérleyfishöfunum á sannar og réttar skoðanir á Íslandi. Slíkir menn biðjast sjaldan afsökunar, og ef þeir gera það, meina þeir ekkert með því.
Einhverju sinni sagði ég frá því á Silfri Egils, að blússöngvarinn Bill Bourne í Kanada væri frændi minn. Bill er afkomandi Stephans G. Stephanssonar og Stephan G. og langafi minn Þórður Sigurðsson voru systrasynir (sjá hér). Viðkvæði Egils var: Aumingja Bill að eiga svona leiðinlegan frænda". Sjá hér. Egill fór svo í að fjarlægja ónotin af Silfrinu, en það var um seinan eins og sjá má hér fyrir neðan. Dónaskapurinn hafði verið afritaður. Enga afsökun sendi Egill til mín eða Bills.
