
Loftslagsskýrsla SÞ var borin fram með rotnum ávöxtum í sjónvarpsfréttum RÚV í gær með aðferðum sem er alkunnar á þeirri stofnum. Enn erum við að tala um öfgatrúarbrögð, þegar rökin fyrir meintri aukningu bilsins milli ríkra og fátækra sökum loftslagsbreytinga á jörðinni okkar er studd með bananaræktanda í Jórdaníu (sjá hér).
Bananaræktandi í Jórdaníu er jafnvel fjarstæðukenndara fyrirbæri en bananaræktandi í gróðurhúsi í Hveragerði. Bananar eru hitabeltisávöxtur og Jórdanía hefur ekki verið í hitabeltinu eins lengi og elstu menn muna. Að nota vatn í bananaframleiðslu í Jórdaníu er eins fjarstæðukennt og að reisa 50 metra keppnislaug á Gaza (sem hefur verið gert, og sundlaugar byggðar við annað hvert hótel), meðan "vatnslaus og langþyrst" börn eru notuð í áróðrinum gegn Ísrael, sem ranglega er kennt um að stela vatninu.
Svo kom Sigmundur Davíð og vitnaði í enn einn gervispámanninn hjá UCLA, Laurence C. Smith, landfræðing sem stundað hefur framtíðarfræði, sem segir að Ísland verði á meðal 8 farsælustu þjóða í heimi eftir 50 ár. Sigmundur sér sóknartækifæri í loftslagsbreytingunum og telur greinilega að íslenskir bændur verði orðnir ofurmatarframleiðendur hungraðs heim áður en langt um líður.
Var Sigmundur ekki einu sinni blaðamaður? Það leynir sér ekki. Nú getur hann hæglega snúið sér að bananaræktun eða tómu tóbaki.
Já, ég sé þetta fyrir mér, Ísland er að verða að framsóknarparadís hér á jörð. Vísir hf getur þá farið að flytja aftur til Húsavíkur og Þingeyrar. Nóg verður af fiski. Makríllinn verður vissulega kominn á fyrrverandi Norðurpólinn og loðnan alveg horfin, enda bara til leiðinda. Flugfiskar munu hins vegar fljúga á land í íslenskum verstöðvum og börnin þurfa ekki lengur að kaupa matreiðsluvín í Kaupfélaginu. Þau verða vínbændur og besta vínið Mouton Rottenchild 2060.